Góðir samstarfsmenn Viðmælendur Ríkisútvarpsins – háir sem lágir - verða að geta treyst því að viðtöl sem tekin eru við þá í nafni Ríkisútvarpsins séu til birtingar í miðlum þess. Þeir eiga ekki að þurfa að sæta því að viðtalsbrot, sem jafnvel voru ekki notuð í því samhengi sem þau voru tekin, birtist á einhverjum bloggsíðum löngu síðar, - hugsanlega í þeim tilgangi að sverta viðmælandann. Þetta hefur með að gera þau heilindi og hreinskiptni sem Ríkisútvarpið þarf að sýna í s amskiptum við fólk og getur stefnt í voða því trausti og trúverðugleika sem frétta – og dagskrárgerðarmenn RÚV þurfa að njóta í samfélaginu, - og þannig torveldað okkar fólki að rækja skyldustörf sín. Nú hefur það því miður gerst að fyrrverandi fréttamaður RÚV hefur tekið ófrjálsri hendi upptöku sem hann sjálfur taldi ekki ástæðu til að nota á sínum tíma en frumbirtir nú á bloggsíðu sinni löngu síðar, - jafnvel bút þar sem augljóst má vera að viðmælandinn vissi ekki að upptaka væri í gangi. Þetta er að mínu viti svo ómerkileg og óheiðarleg framganga að ekki verður við unað, - fyrir nú utan að brjóta á ýmsum hagsmunum RÚV, þ.m.t. eignarrétti og höfundarrétti. Ég hef því ákveðið að gefa viðkomandi sólarhrings frest til að skila þeim gögnum sem hann tók í heimildarleysi frá Ríkisútvarpinu og biðjast opinberlega afsökunar á framferði sínu. Að öðrum kosti verður málið afhent lögmanni RÚV til meðferðar. Bestu kveðjur, Páll Magnússon